Frá áramótum höfum við á Hólum verið að taka fyrir mannslíkamann í allri sinni dýrð. Nemendur fræddust um kynþroskann, getnað, hvernig líkaminn vex og dafnar, lærðu um heiti líffæra, úr hverju við erum og hvað er hollt og gott fyrir líkamann.
Við höfum unnið fjölbreytt og skemmtileg verkefni, bæði bókleg og verkleg. Nemendur bjuggu til myndbönd, bökuðu og elduðu hollan mat, teiknuðu mannslíkama og líffæri, bjuggu til dúska fyrir sáðfrumu og eggfrumu, skoðuðu og stimpluðu fingraför. Gerðu könnun á eigin hreyfingu og hollu mataræði auk þess sem eldri hópurinn endaði þemað á að taka könnun úr viðfangsefninu.
Samhliða þessu þema unnu nemendur verkefni í myndmennt tengt öskudeginum. Gerðu pappagrímur í tvívídd og eldri hópurinn gerðu einnig gifsgrímur í þrívídd. Nemendur unnu auk þess verkefni í textílmennt þar sem unnið var með form og vefnað.
Við höfum nú lokið þemanu okkar um mannslíkamann og framundan eru fjölbreytt þemu og verkefni, t.d. nýsköpun, landnám, saga Íslands og norðurlöndin.