Forvarnarstefna og eineltisáætlun

Forvarnarstefna

Stefna Grunnskólans austan Vatna í forvörnum er að stuðla að alhliða heilbrigði nemenda sinna. Forvarnir spanna mjög breitt svið sem tengist velferð nemenda, svo sem líðan, sjálfsmynd, námsárangri, skólasókn, samskiptum og áhugamálum.

            Forvarnir og lífsleikni eru í algjörri endurskoðun á þessu skólaári og verða kynnt sérstaklega þegar þeirri vinnu er lokið.

Markmið forvarnarstefnunnar er:

  • Að nemendum líði vel í skólanum, þeir öðlist trú á sjálfum sér, finni sig örugga og gangi glaðir til verka.
  • Að nemendur auki við þekkingu sína og færni og komist til aukins þroska.
  • Að nemendur læri að bera virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum einstaklingum og umhverfi sínu.
  • Að allir starfsmenn leitist við að sýna metnað í starfi og geri kröfur til sjálfra sín og nemenda sinna.

Áhersla er lögð á að nemendur þjálfist í að tjá hugsanir sínar, skoðanir og tilfinningar. Efla skal sjálfsþekkingu nemenda og aðstoða þá við að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Nemendur efli samskiptahæfni sína og læri að leysa ágreining. Nemendur skulu fræddir um gildismat, ábyrgð og gagnkvæma virðingu. Nemendur meti sjálfstætt eigin lífsgildi og lífsstíl og læri að standast utanaðkomandi þrýsting. Forvarnarstefnan nær til alls skólasamfélagsins. 

Forvarnaráætlun skólans skiptist í  fimm hluta: Eineltisáætlun, vímuvarnaáætlun, lífsleikniáætlun, jafnréttisáætlun og áfallaáætlun.

 

Eineltisáætlun

Í Grunnskólanum austan Vatna líðst ekki einelti. Í eineltisáætlun skólans er kveðið á um hvernig leitast er við að koma í veg fyrir að einelti eigi sér stað og vinnutilhögun við að uppræta einelti komi það upp í skólanum.

Einelti er hér skilgreint á eftirfarandi hátt:

Einelti er endurtekið og langvarandi ofbeldi, andlegt eða líkamlegt, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að ákveðnum einstaklingi sem ekki er fær um að verja sig.

Til að koma í veg fyrir einelti leggur skólinn áherslu á:

  • Gott samstarf milli heimilis og skóla.
  • Markvissa samvinnu nemenda.
  • Hópefli þegar nýir nemendur koma inn í hópana á haustin.
  • Markvissa kennslu til að efla samskiptahæfni (sjá kennsluáætlanir í lífsleikni), þar sem m.a. er unnið með hluti eins og ábyrgð, virðingu, samkennd, umburðarlyndi o.fl.
  • Öfluga gæslu í frímínútum og íþróttum (baðvarsla).

Komi upp einelti í skólanum er  umsjónarkennari þolanda lykilaðili í málinu. Hann kallar aðra kennara til samstarfs við sig eins og við á í hverju tilfelli. Hafi umsjónarkennari rökstuddan grun um að einelti eigi sér stað eða hafi honum verið tilkynnt um slíkt fer eftirfarandi vinnuferli í gang:

  1. Umsjónarkennari gerir skólastjóra og öðru starfsfólki viðvart um eineltið og hvernig hann ætli að taka á málinu.
  2. Haft er samband við foreldra/forráðamenn þolanda og gerenda.
  3. Umsjónarkennari viðkomandi nemenda vinnur markvisst að því að uppræta eineltið í samstarfi við aðra starfsmenn skólans. (Gátlisti í handbók kennara).
  4. Umsjónarkennari gerir nemendaverndarráði grein fyrir stöðu mála og fær faglega ráðgjöf þaðan ef með þarf.
  5. Umsjónarkennari skráir allt ferlið á sérstakt skráningarblað og Mentor sem farið verður með sem trúnaðarmál og geymt á öruggum stað.
  6. Umsjónarkennari gengur úr skugga um að ástandið hafi lagast með samtölum við þolanda og forráðamenn hans.
  7. Ef ekki tekst að leiða mál til lykta er málinu vísað til félagsmálayfirvalda ásamt skráningu á málsatvikum.
Vímuvarnaráætlun
 

Vinna innan veggja skólans sem miðar að forvörnum í vímuefnamálum skiptist í nokkra þætti. Hún skipar stóran sess við kennslu í lífsleikni, bæði beint og óbeint. Ýmsir viðburðir á skólaárinu tengjast vímuefnavörnum og hafa forvarnagildi og að lokum kveða reglur skólans á um heilbrigða lífshætti.

Lífsleikniáætlun

Allar deildir, allir aldurshópar:

Unnið sé með dygðir í skólanum (líkt og hefur verið gert á Hólum), þar sem ein dygð er tekin fyrir í hverjum mánuði. Dæmi um dygðir: vinátta, vinsemd, kærleikur, samkennd, gleði, virðing, umburðarlyndi, heiðarleiki, hjálpsemi, kurteisi o.s.frv.

Samverustundir: Haldnar séu reglulegar samverustundir 15 – 30 mínútur, t.d. einu sinni í viku.

 

Til að efla félagsfærni nemenda skulu haldnir reglulegir bekkjarfundir þar sem m.a. skal rætt um einelti, vinaverkefnið og mannleg samskipti.

Nokkur markmið í lífsleikni, skv. Aðalnámskrá grunnskóla, fléttast inn í kennslu annarra námsgreina, eins og samfélagsfræði, stærðfræði og listgreina.

 

1. – 4. bekkur - sérstök verkefni

  • Umferðarfræðsla – farið í gegnum leiðir sem nemendur nota á leið sinni í skólann. Hvaða umferðarreglur þarf að hafa í huga, hvað ber að varast o.s.frv.
  • Reiðhjól – hvaða reglur gilda um hjólandi vegfarendur.
  • Slysagildrur og varasöm efni í umhverfinu.
  • Hollar lífsvenjur – hreyfing, svefn og mataræði.
  • Jafnréttisfræðsla með áherslu á starfsgreinar.
  • Sjálfsstyrking og félagsfærni.

 

 

5. – 7. bekkur – sérstök verkefni

  • Jafnréttisfræðsla – með áherslu á verkaskiptingu á heimilum og aðgengi fatlaðra.
  • Nemendur taki þátt í mannúðarstörfum, til dæmis að hjálpa bágstöddum og þeim sem minna mega sín.
  • Umferðarmerki - læri að þekkja helstu umferðarmerki.
  • Hollar lífsvenjur – hreyfing, svefn og mataræði.
  • Hvað kosta ég – nemendur átti sig á kostnaði við eigin neyslu.
  • Netið – jákvæð og neikvæð samskipti
  • Sjálfsstyrking, félagsfærni og fræðsla um heilbrigðan lífsstíl.

 

8. – 10. bekkur – sérstök verkefni:

  • Jafnrétti – nemendur geri sér grein fyrir merkingu hugtakanna kyn, kynhneigð og kynhlutverk og hvaða hlutverki þau þjóna í kynímynd og kynupplifun einstaklinga.
  • Markmiðasetning – nemendur læri að setja sér raunhæf markmið í leik og starfi og verði færir um að meta árangur sinn.
  • Námsleiðir að loknum grunnskóla – náms – og starfsráðgjöf.
  • Umferðarfræðsla.
  • Fræðsla um skaðsemi áfengis, tóbaks og fíkniefna.
  • Hollar lífsvenjur – hreyfing, svefn og mataræði.
  • Að verða foreldri – „Hugsað um barn“
  • Skyndihjálp
  • Sjálfsstyrking og félagsfærni
  • Maríta fræðsla.
  • Hópefli fyrir nemendur að hausti.
  • Ungmenna- og tómstundabúðir að Laugum í Sælingsdal fyrir 9.bekk.
  • Forvarnadagur.

 Jafnréttisáæltun

Í Jafnréttislögum 96/2000, 13. gr. er kveðið á um að í fyrirtækjum og stofnunum þar sem 25 eða fleiri starfa skuli gera jafnréttisáætlun.

 

Nemendur:

Rannsóknir sýna að munur er á strákum og stelpum hvað varðar áhuga og hæfni á flestum viðfangsefnum skólans. Mikilvægt er að kennarar séu meðvitaðir um þessa þætti og taki tillit til þeirra í daglegu starfi. Samkennsla og fámennar bekkjardeildir gera það að verkum að aldursdreifing og kynjaskipting í félagahópnum verður önnur en í stærri skólum. Við leggjum áherslu á eiginleika hvers einstaklings í hópnum fremur en kynjamun. Mikilvægt er að þjálfa þætti eins og samvinnuhæfni og tillitsemi til að auðvelda börnunum að starfa í blönduðum hópum.

  • Nemendum skal ekki mismunað vegna kyns, litarháttar, trúarskoðana eða annarra þátta.
  • Nemendur af báðum kynjum séu búnir undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldu og atvinnulífi.
  • Í skólastarfinu sé lögð áhersla á að efla sjálfstæði og sjálfsvirðingu beggja kynja.
  • Nemendur njóti alhliða menntunar og fái hvatningu til náms í samræmi við þroska og áhuga hvers og eins. 

 

Starfsmenn:

  • Gætt skal fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla og að hver starfsmaður verði metinn á eigin forsendum. Þannig skal tryggt að mannauður skólans nýtist sem best.
  • Starfsmenn skólans skulu eiga jafnan rétt til að starfa innan skólans, til endurmenntunar og allra þeirra þátta sem að starfinu lúta, óháð kynferði, litarhætti, þjóðerni og trúarbrögðum.
  • Starfsmönnum skal gert kleift að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Leitast verður við að auka sveigjanleika í vinnutíma starfsmanna þar sem því verður komið við.

Stefna Grunnskólans austan Vatna er að nemendur, starfsmenn, foreldrar og aðrir sem að skólanum koma eigi rétt á hlýju viðmóti og góðri framkomu óháð þeim atriðum sem eru talin upp hér að ofan.

Áfallaáætlun

Áfallaáætlun skólans er sett fram svo að skýrt sé hvernig bregðast skuli við þegar válegir atburðir sem snerta nemendur eða starfsfólk skólans verða. Áfallaáætlunina á að nota sem gátlista þegar skipuleggja þarf áfallahjálp. Athuga ber að taka þarf tillit til aðstæðna hverju sinni þegar viðbrögð eru ákveðin. Mikilvægt er að starfsfólk skólans sé vel undir það búið að takast á við þá erfiðleika sem fylgja hinum ýmsu áföllum.

Áfallaráð

Í áfallaráði sitja skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri, skólahjúkrunarfræðingur og sóknarprestur. Skólastjóri eða staðgengill hans er ábyrgur fyrir því að kalla saman áfallaráð og stýra vinnu þess og skipulagi.

           

Hlutverk áfallaráðs

Hlutverk áfallaráðs er að gera vinnuáætlun svo bregðast megi fumlaust og ákveðið við þegar áföll hafa orðið, s.s. bráð veikindi, alvarleg slys, dauðsföll eða aðrir atburðir sem líklegir eru til að kalla fram áfallastreitu eða sorgarviðbrögð. Vinnuáætlunin þarf að vera skýr og afdráttarlaus um hver sinni hvaða hlutverki, í hvaða röð og hvernig beri að bregðast við. Mikilvægt er að huga að óskum fjölskyldna þeirra sem hlut eiga að máli hverju sinni. Við skipulag áfallahjálpar og viðbragða þarf að hafa í huga alla þá einstaklinga sem koma að starfsemi skólans s.s. nemendur, aðstandendur, kennara, stjórnendur og annað starfsfólk skólans. Áfallaráð skal sjá til þess að allt starfsfólk fái kynningu á því hvernig bregðast skuli við áföllum. Einnig þarf að sjá til þess að kennarar og annað starfsfólk sem að áfallahjálp vinnur fái stuðning og hjálp.

Áföll sem þessi áætlun nær til eru helst:

  • Alvarleg slys (nemenda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks skólans).
  • Alvarleg veikindi (nemenda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks skólans).
  • Erfiðir skilnaðir (aðstandenda nemenda eða starfsfólks skólans)
  • Andlát (nemenda, aðstandenda þeirra, starfsfólks skólans eða aðstandenda starfsfólks).

Áfallaráð ræðir þau áföll sem upp koma og tekur ákvörðun um hvort eða til hvaða aðgerða skal gripið.