Í þessari viku voru hestadagar á Hólum, það voru tíu nemendur á unglingastigi ásamt nemendum frá Varmahlíð og Sauðárkróki sem sóttu þriggja daga námskeið í hestamennsku við Háskólann á Hólum. Námskeiðið er liður í æfingakennslu fyrsta árs nema hestafræðideildar Háskólans á Hólum. Á námskeiðinu fengu nemendur bæði verklega og bóklega reiðkennslu hjá verðandi reiðkennurum háskólans.
Nemendum var skipt í hópa eftir reynslu og getu. Ásamt því að fara á hestbak fengu nemendur m.a. fræðslu um hesta og hestamennsku, kennslu í að leggja á, auk kynningar á kennslusvæði háskólans. Síðasta daginn fóru nemendur gegnum þrautabraut á hestbaki og svo á hlaupum með örlitlum breytingum. Farið var í leiki í sal og spurningaleik í Kahoot úr efni þeirra fræðslu sem farið var í. Kennaranemar enduðu á því að bjóða upp á köku og afhenda viðurkenningarskjöl. Nemendur voru almennt mjög ánægðir með dvöl sína á Hólum og okkur þykir afar ánægjulegt að geta boðið upp á þetta samstarf á milli grunnskóla og háskóla.