Síðustu vikur hafa kennarar á Hólum verið að þróa og móta kennsluhætti í verkefnamiðuðu námi á fjölbreyttan hátt. Tvær vikur í nóvember voru teknar undir svokallaða áætlana lotu þar sem nemendur í 5.-7. bekk fengu verkefni til tveggja vikna sem þeir áttu að skipuleggja fyrir sig og raða niður á kennsludagana. Nemendur í 1.-3. bekk fengu einnig verkefni til tveggja vikna en þeim var hins vegar ekki ætlað að skipuleggja verkefnavinnuna með sama hætti og eldri nemendur. Í þessari lotu var m.a. lögð áhersla á lesskilning, endurvinnslu pappírs og sköpun.
Í verkefnavinnunni í haust hafa kennarar reynt að stýra nemendum til aukins sjálfstæðis, t.a.m. að kenna þeim að skipuleggja nám sitt fram í tímann með því að búa til verkefnalista og haka við það sem er lokið. Einnig hafa kennarar búið til leiðbeiningar um verkefni í list - og verkgreinum, bæði glærusýningar og myndbönd, sem hefur verið deilt með nemendum í gegnum Classroom og þeir geta þá farið og unnið verkefnin þegar þeim hentar.
Núna í desember eru nemendur að vinna í lotu sem ber heitið trúarbrögð. Eldri hópurinn hefur fræðst heilmikið um kristna trú og eru nemendur að byrja að sérhæfa sig í öðrum trúarbrögðum sem þeir koma til með að bera saman við kristna trú og kynna samanburð sinn fyrir samnemendum sínum.
Nemendur í yngri hópnum eru hins vegar að vinna með Jólaguðspjallið og eru nú í óðaönn að búa til myndver. Í myndverinu verða teknar ljósmyndir sem verður raðað saman í forritinu Stop Motion og myndbandið síðan talsett. Það verður spennandi að sjá afrakstur þessa verkefnis en vonandi náum við að deila því með foreldrum fyrir jólafrí.
Samhliða þessari vinnu hafa nemendur unnið fjölbreytt verkefni í hringekju. Í hringekjunni eru 9 stöðvar og eru nemendur í 20 mínútur á hverri stöð. Verkefnin á stöðvunum eru ýmist þjálfunartengd eins og t.d. skrift, yndislestur og fingrasetning eða að á stöðvunum eru verkefni sem gott er að vinna í styttri og fleiri skorpum, t.d. smíðaverkefni, stærðfræðiþrautir og verkefnabækur. Hringekjan er keyrð fram að morgunmat alla morgna vikunnar og hafa nemendur því möguleika á að komast á sömu stöðina 2-3 sinnum í viku.
Eftir að reglugerð um takmarkanir á skólastarfi tók gildi í byrjun nóvember hefur verið lögð meiri áhersla á útikennslu og hafa allir nemendur fengið útikennslutíma einu sinni til tvisvar í viku. Í útikennslunni hafa nemendur m.a. grillað pylsur í felum, náð í jólatré út í skóg, farið í snjókastalakeppni, leyst stærðfræðiþrautir og farið í leiki.
Eins og gjarnan í desember þá er hefðbundið skólastarf brotið upp með ýmsum uppákomum eins og til dæmis piparkökubakstri, konfektgerð, laufabrauðsskurði og jólaföndri og hafa margar kynjaverur litið dagsins ljós á Hólum í vikunni.