Í haust hafa nemendur á Hólum farið í gegnum nokkrar lotur í verkefnamiðuðu námi. Meðal þess sem unnið hefur verið með er umhverfið, íslensku húsdýrin, heilsa, draugar og nemendur og fjölskyldur þeirra.
Lotan um nemendur og fjölskyldur þeirra var sérstaklega skemmtileg en þar var unnið eftir hæfniviðmiðum í samfélagsfræði, íslensku, myndmennt, stærðfræði, upplýsinga- og tæknimennt, ensku og dönsku. Meðal verkefna sem nemendur unnu voru ættartré þar sem meðal annars var unnið með hugtökin forgrunn og bakgrunn. Inn á ættartrén settu nemendur upplýsingar um foreldra sína, afa, ömmur, langafa og langömmur. Bæði ættartrén og tímalína sem var eitt af verkefnum lotunnar voru þess eðlis að nemendur þurftu að fá aðstoð foreldra við að afla upplýsinga um forfeður sína, hvenær þeir fæddust og hvar þeir ólust upp. Á tímalínuna settu nemendur síðan nöfn, fæðingardaga og fæðingarár forfeðra sinna og náði tímalínan aftur til ársins 1874. Í stærðfræði unnu nemendur ekki aðeins með tímalínu og ártöl heldur var ýmsum verkefnum tengdum klukkunni fléttað inn í lotuna. Nemendur í 5.-7. bekk tóku jafnframt viðtöl við valda fjölskyldumeðlimi um uppruna þeirra og barnæsku. Allir nemendur merktu uppruna sinn inn á landakort. Flestum nemendum dugði Íslandskort, nokkrir þurftu
Evrópukort og er gaman að segja frá því að einum nemanda dugði ekkert minna en heimskort þar sem hann gat rakið ættir sínar til þriggja heimsálfa. Ættartré nemenda og tímalínan voru hengd upp á ganginum í skólanum og er gaman að segja frá því að einn starfsmaður leikskólans Tröllaborgar uppgötvaði ættartengsl á milli sín og eins nemanda í hópnum með því að skoða ættartré viðkomandi nemanda. Nemendur voru mjög áhugasamir og virkir um verkefnin sem þeir unnu og voru margir sem uppgötvuðu hvað ömmur, afar, langafar og langömmur heita í raun og veru.